Í anda Nietzsche ætla ég að lýsa yfir dauða hugmyndar. Þið heyrðuð það fyrst hér. Nýfrjálshyggjan er dauð. Hugmyndir sem hafa tröllriðið fjármálamörkuðum heimsins síðustu þrjátíu ár eru komnar á síðustu metrana. Minni reglur og meira frelsi eru orsökinn fyrir kreppunni núna, bæði í Bandaríkjunum og á Íslandi og allsstaðar annarsstaðar.
Þegar menn eins og Ben Bernanke eru farnir að biðja um regluverk utan um viðskipti með svokallaðar markaðsvörur (í hans tilfelli Olíu) þá er nú hætt við að einhver geri í brókina sína uppi í Valhöll.
Við sem erum vinstramegin í íslenskri pólitík og kommúnistar í Bandaríkjunum höfum aldrei haft trú á því að frelsi í viðskiptum eigi að vera ótakmarkað. Einhverjir kallar úti í bæ eiga ekkert að hafa leyfi til að versla með lifibrauð fólks á hinum svokölluðu mörkuðum. Mörkin verða að liggja miklu nær höftum en frelsi heldur en þau gera núna.
Augljós ummerki í Rússlandi eftir græðgisvæðinguna þar upp úr ‘90 um muninn á algjörum höftum og algjöru frelsi hefðu átt að snúa mörgum nýfrjálshyggju-tittinum. En menn blinduðust af öllum milljörðunum sem fáir náðu að sanka að sér. Stuttbuxnadrengir Davíðs hefðu átt að hlusta á varnaðarorð þeirra sem sögðu að afhending gríðarlegs fjármagns til fárra einstaklinga í gegnum svokallaða einkavæðingu væri bæði siðlaust og óráðlegt. Þegar ríkið tapar peningum er það samfélagsins að skipta sér að því. Þegar milljarðamæringarnir gera það kemur slíkt engum við nema þá helst til að hlaupa undir bagga með þeim.
Fátækt í Rússlandi gjörsamlega rauf skalan þegar fyllirafturinn Boris Jeltsin tók að borga til baka sínum stuðningsmönnum. Lífeyrir fólks hætti að berast og gamla fólkið drapst í hrönnum. Allt til þess að hin sívaxandi millistétt og hin gráðuga yfirstétt gætu eignast meira af lúxusvarningi. Í staðinn fyrir kúgun og skort upplifði stór hluti rússnesku þjóðarinnar yfirgang og svelti. En minni hluti en upplifði bara skort undir glötuðu áætlunarmódeli kommúnista. Mannfórnir voru þess virði, líkt og alltaf er tilfellið í sögu Rússlands.
En í stórveldastjórnmálum eru bara tveir pólar; hið illa og við. Ekkert er þarna á milli. Norður Evrópa og þá sérstaklega Norðurlöndin þóttu ekki nógu stór dæmi um hagkerfi til að hægt væri að taka þau alvarlega. Sovétið var ömurlegt og þess vegna hlýtur nýfrjálshyggja í efnahagsmálum að vera best í heimi því hún er á öndverðum meiði við áætlunarhagkerfi.
Menn misstu sig. Síðustu tíu árin hafa menn verið að missa sig á ólíklegustu stöðum. Á Íslandi, í Afríku. Allstaðar trúðu menn á að markaðurinn myndi sjálfkrafa sjá fyrir jafnvægi þegar einhverjum toppum væri náð. Menn ætluðu að vera búnir að læra á kreppunni ‘30. Þess vegna var í lagi að slaka aðeins á þeim neyðarúrræðum sem komið var á í kapítalískum hagkerfum eftir kreppuna miklu.
Takk kærlega!
Ég tók ekki þátt í neinu helvítis góðæri. En ég þarf svo sannarlega að borga fyrir andskotans hálfvitaganginn í ykkur. Ég þakka ykkur kærlega fyrir stuttbuxnatittirnir ykkar.
Mbk,
Drengur Óla Þorsteinsson
Krossfari gegn kaldastríðshugmyndum
Í næsta þætti verður fjallað um nýíhaldið og hvernig það er að telja okkur trú um að undir hverjum steini leynist hættur. Fær okkur til að afsala okkur öllum réttindum til að verjast ímynduðum hættum.

