Akureyri er afskaplega fallegur bær, á því leikur enginn vafi. Þó svo að ljótleikinn aukist í réttu hlutfalli við hæð yfir sjávarmáli þá er slíkt ekki áhyggjuefni fyrir miðbæjarrottur eins og mig. Á Akureyri er líka alveg hreint mögnuð íþróttaaðstaða. Eins og einn góður sagði þá er verið að “…búa til veðurlausa aumingja” í þessum mannvirkjum. Á Akureyri eru tvö kvikmyndahús, leikhús og tveir eða þrír ágætir veitingastaðir og skíðabrekka á …héraðsmælikvarða.
Sundlaugin er mögnuð. Ég vex aldrei upp úr rennibrautunum og pottaúrvalið er slíkt að valkvíði lætur sjá sig þegar maður sperrir sig stæltur við bakkann. Ég ákvað að synda nokkrar verðir í dag til að viðra ökklan aðeins. En ökklinn var hvorki flöskuháls né akkilesarhæll. Hann var bara ökkli. Hinsvegar vildu lungun ekki taka þátt í óþarfa erfiði og fóru í verkfall.
Ég hélt ég myndi drepast í sturtunni eftir tilraunina. Mér sortnaði fyrir augum og ég þurfti að styðja mig. Sem betur fer voru sundlaugaverðirnir eins og þjónar á fjögurra stjörnu veitingahúsi og hirtu upp eftir mig allt sem ég gleymdi þegar ég ráfaði fram og til baka eins og villuráfandi sauður.
Ég passaði mig á að skrúbba burt allar dauðar húðfrumur og hvaðeina sem auka lág utan á mér áður en ég steig á viktina. 78kg sagði viktin. Ég hoppaði á henni. 77,4kg sagði viktin. Ég ætlaði að hoppa aftur en þá sá ég í speglinum að einn appelsínugulur sundlaugavörðurinn teygði sig í talstöðina.
Það sem ég lærði á þessari sundferð er að hopp er mun árangursríkari líkamsrækt, og sársaukaminni, þótt hún sé litin hornauga af appelsínugulu fólki, heldur en sund.

