Sæl veriði.
Í kringum 20. desember keyrðum við Hildur á Skoda í samfloti við Auði og Hörð til Þórshafnar. Ferðin var frekar tíðindalítil þar til Þistilfjörðurinn mætti undir himininn. Þistilfjörðurinn hefur furðuleg áhrif á himinhvolfið því hann gerir það flott og spennandi. Ég hef eiginlega aldrei séð neitt merkilegt á himninum við Eyjafjörð, en í hvert skipi sem maður fer Austur er eins og að tómstundamálarinn hafi gefist upp á að mála Þingvelli á striga og áveðið að mála á himinhvolfið í Þistilfirði.
Myrkrið er líka dimmara á Þórshöfn heldur en víðast hvar annarsstaðar. Það er líka ögn lengur við líði en hérna á Akureyri. Upp á móti kemur að stjörnurnar sjást líklega betur á Langanesi en við miðbaug.
Við æltuðum að taka allrosalega á því í átinu um jólin. Á aðfangadag eldaði ég svínaósköpin sem Íslendingar hafa vanið sig á líkt og siginn fisk og grænar baunir. Tókst nú samt að gera þetta ætt með því að passa upp á að eldunartími færi ekki fram úr hófi. Þó vara sprautusaltbragð til staðar sem mætti missa sín. Rjúpurnar voru guðdómlegar. Meðlætið var allt ágætt en einhverra hluta vegna var matarlistin lítil.
Á Jóladag átum við tvær gerðir af hangikéti hjá Jóhönnu. Sprautusaltað, krúttreikt og bleikt aumingjahangikjöt frá einhverri verksmiðju og djúpjarmandi, brúnt kraftakjöt frá Hallgilsstöðum. Hið síðarnefnda bragðaðist betur en matarlistin var ekki mikil. Kom mér ekki á óvart þar eð ég er ekki mikill hangikjötsmaður.
Annar í Jólum. Nú átti aldeilis að massa pakkann. Ég hafði tekið með mér endur frá Akureyri. Dundaði allan daginn (og daginn áður) við að nudda kvikindin, losa haminn, bera salt, búa til gljáa og svo framvegis. Þetta átti að verða hápunkturinn á Jólunum (Rjúpurnar eru sjálfgefnar í topp sætinu). Þegar u.þ.b. 3 klukkutímar eru í matartíman kviknar ljósaperan fyrir ofan hausinn á mér. Ég var orðinn veikur!
Ælupest á Jólunum er toppurinn. Það er svona eins og sárasótt á útihátíð. Ég píndi mig til að klára matreiðsluna en hafði ekki nokkra einustu list á nokkrum sköpuðum hlut.
Helvítis pestin var að koma og fara fram á 30. des. Ég var yfirleitt góður fram að kvöldmatarleyti, þá versnaði pestin. En 30. des var ég orðinn góður! Jei! Ég get þá étið og verið fullur á gamlárskvöld. Nei, eins og Palestínumenn þekkja þá er lífið ekki mjög sanngjarnt. Ég veiktist á gamlárskvöld aftur. Píndi matinn ofan í mig, en ég eldaði bæði svínabóg og lambalæri, hvort um sig afskaplega gott.
Ekkert varð úr fylleríinu og ég hékk með AA mönnum á rúntinum fram undir nótt þegar ég varð að fara heim og…
Eftir þessi miklu matarjól tókst mér að léttast um 3 kíló.
En ég lág ekki í kör öll jólin, því fer fjarri. Svo gott sem daglega fórum við í fótbolta í Íþróttahúsinu og létum eins og fávitar. Á laugardeginum á milli jóla og nýárs var svo fótboltamót. Liðið mitt, “Allir nema Steini”, er líklega efnilegasta knattspyrnulið heims. Við stóðum okkur eins og hetjur á mótinu og enduðum í öðru sæti á eftir einhverjum fitubollum.
Haukur fór heill í gegnum jólin fyrir utan að hann missti hnéð 30. des. En Guðrún læknir setti það aftur á.
Ég, Hildur og Gosi fórum líka í sveitaferð. Við Hildur ætluðum út á nes en Gosi plataði okkur í Þistilfjörðinn. Skoðuðum m.a. fallegasta bæjarstæði landsins og gengum út á Rauðanes. Hildur datt.
Þrátt fyrir lasleika tókst mér að mæta á tvö böll. Tóm gleði og hamingja ríkti og næstum enginn slóst við neinn. Hljómsveitirnar voru mis-vel æfðar en hæfðu hvor sínu tilefninu ágætlega.
Ég fékk að spila hlutverk mitt sem erfiði neytandinn á Þórshöfn í fyrsta skipti í 10 ár. Fór í Ríkið og keypti mér fullt af brennivíni. Jólavínið var nú, sem svo oft áður, Faustino I. Á hilluni stóð 2.990.- en starfsmennið rukkaði mig um 3.190.- ég sagðist ekki borga krónu meira en 2.990.- og var sérlega leiðinlegur. Ég vann. Setti svo 200 kallinn í spilakassa og tapaði honum á augabragði. Þetta snýst um prinsippið!
Heimsótti Jóhann a.m.k. 3svar og spilaði Guitar Hero. Það er mun skemmtilegra en það lítur út fyrir að vera. Þetta er svona eins og Sing Star fyrir þá sem eru með réttan fjölda litninga.
En allt í allt er ekki hægt að segja annað en að ferðalagið hafi verið vel heppnað. Gestrisni Gunnu var á heimsmælikvarða og allir voru mjög skemmtilegir og fallegir eins og von og vísa er á Þórshöfn.